4. Safnarinn Petra

Safnari og náttúrubarn eru orð sem tengjast Petru órofa böndum. Frá því hún opnaði augun í fyrsta skipti veitti hún umhverfi sínu meiri athygli en flest okkar gera nokkurn tímann. Foreldrar hennar virðast hafa skynjað þetta og völdu henni því viðeigandi nafn því á grískri tungu þýðir orðið „petra“ einfaldlega steinn.

Petra byrjaði að safna steinum fyrir alvöru þegar þau Nenni fluttu inn í Sunnuhlíð árið 1946. Ástæðan var einfaldlega sú að þá hafði hún loksins svigrúm til að færa alla steinana heim í hús. Þessa steina hafði hún skoðað í fjöllunum frá barnsaldri svo að í raun hafði söfnunarstarf hennar farið fram í huga hennar fram að þeim tíma að hún hafði húsrúm til að taka þá með sér og geyma. Eða eins og hún sagði sjálf: „Ég vissi hvert ég ætti að fara þegar ég fór virkilega að safna.“

Marga þeirra steina sem Petra fann sem barn er ekki að finna í safninu hennar. Erlendir sem innlendir steinasafnarar voru búnir að hafa þá á brott með sér áður en Petra hafði aðstöðu til að safna þeim. Fjölmarga steina lét Petra einnig hvíla á þeim stöðum sem þeir hafa legið í milljónir ára. Þessir steinar eru einfaldlega of stórir til að hreyfa þá úr stað en Petra heimsótti þá reglulega og skoðaði þá. Hún „heilsaði upp á þá“, eins og hún orðaði það sjálf og freistaðist aldrei til að brjóta þá niður til að koma hluta af þeim heim með sér. Það má því segja að steinasafnið hennar hafi verið geymt á tveimur aðskildum stöðum; í Sunnuhlíð og í huga hennar sjálfrar. Það síðarnefnda náði um fjörðinn allan og svo langt þar út fyrir.

Fyrstu tuttugu árin af söfnunarstarfi sínu sótti Petra nær eingöngu steina í fjörurnar og fjallgarðinn norðan fjarðarins. Petra gekk einfaldlega út um aðaldyrnar á Sunnuhlíð og eins og leið lá upp brekkurnar og á fjöllin fyrir ofan. Allt fram á miðjan sjöunda áratuginn voru engir vegir til að fara til steinaleitar suður fyrir fjörð eða í firðina sunnan við Stöðvarfjörð. Bílvegur var ekki lagður um Kambanesskriður fyrr en árið 1962 og brú yfir Stöðvará kom það sama ár. Bílfær vegur norður til Fáskrúðsfjarðar kom heldur ekki fyrr en árið 1953. Stöðvarfjörður var því mjög afskekktur lengi eftir að bílaöld hófst sem frestaði því að Petra leitaði steina í nálægum sveitum. Steinarnir hennar eru því langflestir úr Stöðvarfirði og af Austurlandi því Petra leitaði sjaldan steina í öðrum landsfjórðungum.

Margir hugsa með sér að steinasafnari hljóti að vera svolítið skrítinn og Petra fékk að heyra þá skoðun úr mörgum áttum í gegnum árin. Henni var oft bent góðlátlega á að henni væri nær að halda sig heima við bakstur eða önnur heimilisverk sem hæfðu betur húsmóður eins og henni. Petra lét slíkar úrtölur eins og vind um eyru þjóta og reyndi ekki að bæla niður söfnunarþörf sína. Hún var samt sammála því að hún hlyti að hafa verið sérlunduð fyrst hún hafði gaman að því að tína grjót. En það var þörf sem hún réði ekki við.

Það duldist engum að Petra bjó að sérstakri gáfu til að finna fallega steina. Þeir eru fjölmargir sem hafa farið með henni í steinaleit og hafa lýst því hvernig hún týndi upp glæsilega steina úr slóð þeirra; steina sem þeir veittu enga sérstaka athygli. Suma þeirra sótti Petra niður í fúamýrar án þess að nokkuð gæfi það í skyn að þar leyndist eitthvað sem vert var að skoða.

Petra taldi það ekki fjarri lagi að líkja steinasöfnun við veiðar. Það sem réttlætti erfiðið við burðinn var spenna leitarinnar og ánægjan af „veiddum“ steini. Engir tveir steinar eru eins og hún sá alltaf eitthvað nýtt í hverjum steini sem hún fann. Þessi sköpunarkraftur náttúrunnar kallaði hana til sín og hún gat aldrei leitt það kall hjá sér. Petra sagði að gleðin yfir fundnum steini hefði þó ávallt verið blönduð svolitlu samviskubiti. Hún hafði það oft á tilfinningunni að hún hefði rænt þá sem í náttúrunni búa. Þrátt fyrir að hún hefði aldrei séð til ferða álfa og huldufólks, efaðist hún ekki um tilvist þeirra og trúði því að henni væri fyrirgefið. Til marks um það sagði hún vera þá staðreynd að hún hefði aldrei dottið illa eða meitt sig í öll þau ár sem hún sótti ríki þeirra heim. Þetta túlkaði hún sem svo að steinasöfnun hennar hefði verið sátt og samlyndi við þá sem hún taldi vera óumdeilda eigendur steinanna.

5. Lífið í safninu

Á undanförnum áratugum telja gestir Steinasafnsins hundruð þúsunda. Eins og gefur að skilja hafði þetta áhrif á daglegt líf Petru og fjölskyldu hennar. Margir sem koma hingað í Sunnuhlíð skoða steinana hennar Petru án þess að gera sér grein fyrir að þeir eru staddir á einkaheimili. Á undanförnum árum hefur Sunnuhlíð vissulega tekið á sig svipmót safns en var þó fyrst og síðast heimili. Petra, sem bjó hér árið um kring, hafði fyrir löngu sætt sig við allt það ónæði sem af gestakomum stafaði og henni þótti verðlaunin yfirskyggja óþægindin með öllu.

Þegar vetur konungur sleppir takinu bíða fjölskyldunnar vorhreingerningar í safninu. Víða má sjá það í gestabókum Petru að margir hafa það eitt að segja eftir dvöl sína hér að þeir séu því fegnastir að þurfa ekki að halda þessu heimili hreinu. Það er skiljanlegt því um er að ræða gífurlega vinnu sem tekur marga daga þrátt fyrir að stór hópur fólks hjálpist að. Augljóslega þarf að hreinsa burt dauðan gróður og tína mikið af rusli sem fokið hefur inn í garðinn í vetrarveðrum. Fáir gera sér þó grein fyrir því að taka þarf alla steina sem í garðinum eru og þrífa þá sérstaklega auk bekkjanna sem margir þeirra hvíla á. Inni fyrir er þetta endurtekið og hver einasti steinn er tekinn úr hillunum til að mögulegt sé að hreinsa burt ryk og önnur óhreinindi. Á meðan safnið er þrifið er tækifærið notað til að dytta að steinahirslum bæði innan- og utandyra og sinna öðru viðhalds- og uppbyggingarstarfi. Öll uppbygging garðsins hefur verið unnin af fjölskyldunni sjálfri og vinum þeirra. Aldrei hefur verið leitað aðstoðar sérfræðinga við þróun safnsins heldur er allt sem hér gefur að líta byggt á hugmyndum Petru.

Sumarið og haustið er annasamur tími hjá afkomendum Petru. Síðustu tíu árin hefur gestum fjölgað jafnt og þétt og þeir urðu rúmlega tuttugu þúsund í fyrrasumar. Yfir mesta ferðamannatímann koma hér oft nokkur hundruð manns daglega og ekki er óalgengt að tvö til þrjú hundruð manns skoði safnið hennar Petru á sama tíma. Undanfarin ár hefur safnið verið vinsælasti viðkomustaður ferðamanna á Austurlandi. Gestir safnsins eru fjölþjóðlegur og lítríkur hópur og í gegnum árin fékk Petra margar eftirminnilegar heimsóknir.

Fyrir nokkrum árum komu hingað tólf Ítalir sem voru á hjólaferðalagi um Ísland. Þeir höfðu lent í íslensku slagveðri og þegar þeir komu í Sunnuhlíð voru þeir gegnblautir og kaldir. Petra bauð þá velkomna, gaf þeim að borða og þurrkaði af þeim öll fötin áður en þeir lögðu aftur af stað. Í gestabókum Petru er að finna margar slíkar sögur, til dæmis þá af þremur þreyttum Bandaríkjamönnum sem hún bauð að setjast að kvöldverðarborðinu með fjölskyldunni og bauð þeim síðan húsaskjól um nóttina. Þó mörg ár séu liðin berast safninu ennþá bréf þar sem þeir og fleiri þakka Petru gestrisnina.

Hingað kom einu sinni Bandaríkjamaður sem hafði særst alvarlega í Víetnamstríðinu og var bundinn við hjólastól. Hópurinn sem hann ferðaðist með hafði stuttan tíma aflögu en þegar komið var að brottför neitaði hinn fatlaði hermaður að yfirgefa safnið. Eftir rúmar þrjár klukkustundir samþykkti hann loksins að fara en sagði við Petru að eftir heimsóknina ætti hann léttara með að sætta sig við hlutskipti sitt því nú vissi hann hvernig staður biði hans eftir dauðann. Annar ferðamaður upplifði komuna í safnið á svipaðan hátt og fór úr skónum niðri á götu. Hann fullyrti að safnið væri helgur staður og inn á skónum færi hann ekki.

Í safnið kemur fjöldi fólks sem annað hvort trúir á mátt steinanna eða kemur í fræðilegum tilgangi. Þó að þessir tveir hópar nálgist steinana á ólíkan hátt þá má fullyrða að upplifun fólks hér í safninu getur verið afar sterk. Þetta sést af því að margir koma hér ár eftir ár til að rifja upp kynni sín af safninu. Þýskur jarðfræðiprófessor hefur t.d. heimsótt safnið í yfir tuttugu skipti og kemur þá oft ásamt útskriftarnemum sínum. Annar hópur þýskra stúdenta sem kemur líka reglulega í heimsókn sækir hingað upplifanir sem eru örugglega aðrar en annarra sem hingað koma. Þessi hópur kemur frá þarlendum blindraskóla og athyglisvert að mörg þeirra gátu sagt til um liti steinana sem þeim voru réttir.

Petra kunni sögur af fólki sem brast í grát þegar það gekk inn í safnið og aðrar af fólki sem fundið hefur fyrir svo miklum krafti frá einstökum steinum að það fann fyrir líkamlegum óþægindum. Hvort fallegur steinn býr yfir mætti til lækninga eða hvort hann inniheldur sérstaka orku verður aldrei útkljáð eða sannað. Til þess er nálgun fólks of ólík. Hitt er víst að fólk sem trúir staðfastlega á orku steinanna kemur hingað í hundraða vís á ári hverju.

 

Kveðjustund (úr bókinni Steina Petra)

Oft komin til fjalla þegar ég leggst á koddann

Petra Sveinsdóttir„Ég hef verið mjög lánsöm hvað varðar heilsuna, ekki síst hendurnar sem ég hef fiktað með allan daginn. Ég hlýt að þakka það mikilli útiveru. Það er ekki til í dæminu að ég sé hrædd við dauðann. Ég býst ekki við að halda áfram minn veg eins og ekkert hafi ískorist en ég þurrkast örugglega ekki alveg út. Ég trúi því ekki endilega að skrattinn bíði öðrum megin og reyni að klófesta mig og guð hinum megin. Það er margt meira spennandi í veröldinni en þetta sem við okkur blasir dagsdaglega. Ég sé ekki eftir neinu, er mjög sátt og vildi ekki breyta neinu þótt ég gæti rakið upp lífið. Ég prjóna iðulega frá morgni til kvölds og er oft komin til fjalla þegar ég leggst á koddann."

Petra lést 10. janúar 2012, sex vikum eftir að bókin var gefin út.