Hvað er steinn?

Nálægt 150 tegundir steina hafa fundist á Íslandi. Steintegundir geta myndast á marga vegu, meðal annars við það að bráðin hraunkvika storknar. Steintegundir geta einnig fallið úr heitu vatni sem seytlar um berg og myndar þannig holu- og sprungufyllingar. Það kallast lághitaummyndun sem hefur orðið til við 50° til 300° hita en á löngum tíma.

Þessar fyllingar eru myndaðar úr efnum sem heita vatnið hefur leyst upp úr sjálfu berginu eða nálægum bergmyndunum. Steinar myndast því vegna nýrra aðstæðna sem skapast í bergi. Aukinn hiti og þrýstingur veldur því að bergið tekur að ummyndast. Útbreiðsla holufyllinga er svæðisbundin og finnst einkum í gömlu bergi á Austur-, Norður- og Vesturlandi.

Mestur hluti steinaríkisins heyrir til hinna svonefndu kvartssteina, sem hlotið hafa nöfn og verið sundurgreindir eftir lit sínum, en litir þeirra eru fram komnir við íblöndun ýmissa efna, þar sem kvartsið sjálft er tær kísill. Flestir eða allir verða kvartssteinarnir til sem fyllingar í holum eða sprungum í bergi.

(Steindór Steindórsson frá Hlöðum, úr bókinni: „Óður steinsins")