3. Fjölskyldan í Sunnuhlíð

Petra og Nenni voru aðeins unglingar þegar þau felldu fyrst hugi
saman. Samskipti þeirra voru hefðbundin og einkenndust af miklum fjarvistum. Nenni var öllum stundum úti á sjó en Petra vann hefðbundin störf í landi. Meðal annarra verka var hún t.d. vinnukona á tveimur bæjum í firðinum en sinnti annars öllu sem til féll. Veturinn 1941 til 1942, þegar Petra og Nenni voru um tvítugt, urðu breytingar á lífi þeirra. Petra ákvað að fara í hússtjórnarskóla á Blönduósi, en áður hafði hún stundað slíkt nám á Hallormstað í nokkrar vikur. Ákvörðun Petru um að fara í framhaldsskóla var tekin til að láta gamlan draum rætast; Petru langaði til að verða hjúkrunarkona en próf frá hússtjórnarskóla nægði til innrita sig í slíkt nám. Þennan vetur dvaldi Nenni í Reykjavík í vinnu hjá hernum. Þegar Petra kom heim úr skólanum um vorið hætti hún við að læra hjúkrun vegna þess að annar draumur hafði tekið yfirhöndina. Sá draumur var að stofna heimili með æskuástinni sinni.

Skömmu eftir heimkomuna, sumarið og haustið 1942, ræddu Petra og Nenni um að drífa í því að gifta sig. Þau byrjuðu að undirbúa stóra daginn og því keypti Nenni sér giftingarfötin. Mál þróuðust þó á þann veg að bið varð á því að brúðkaupið færi fram. Petra og Magga systir hennar höfðu ákveðið mörgum árum fyrr að þær og bróðir þeirra Björgólfur skyldu öll gifta sig saman. En um sama leyti veiktist Björgólfur af berklum og varð að fara á berklahælið á Vífilsstöðum. Sú dvöl hans varði í þrjú ár og allan þann tíma biðu þær systur en það má geta þess til gamans að Nenni óx upp úr giftingarfötunum sínum á meðan. Dagurinn rann þó upp og þann 6. ágúst 1945 játuðust þau loksins hvort öðru.

Þegar Petra vaknaði að morgni brúðkaupsdagsins leið henni ekki alls kostar vel. Það ætti ekki að koma neinum á óvart að Petra ákvað að fá sér gönguferð upp í fjall. Hvort hún leit eftir steinum fylgir nú ekki sögunni en það er mjög líklegt því Petra hafði gert það ósjálfrátt síðan hún var barn. Dagurinn var annars allur hinn besti. Brúðirnar klæddust allar svörtum kjólum sem þær létu sauma sérstaklega fyrir sig og síðan var boðið til veglegrar veislu sem sótt var af fjölda vina og ættingja. Tilefnið var ærið; bróðir og vinur var heimtur úr helju og lífið brosti við þeim öllum.

Petra og Nenni réðust í það að byggja sér heimili árið sem þau giftu sig. Þau grófu fyrir húsinu sínu rétt ofan við Árbæ, æskuheimili Petru, en þegar búið var að steypa grunninn þá veiktist Nenni.
Vegna veikinda hans hættu þau við að byggja sér hús og tóku þá ákvörðun að kaupa lítið timburhús innar í þorpinu sem kallaðist

Sunnuhlíð. Grunninn af húsinu sem þau voru byrjuð að byggja fékk Björgólfur bróðir Petru og kom það honum vel vegna veikindanna sem hann hafði glímt við. Litla timburhúsið var ekki nógu stórt fyrir vaxandi fjölskyldu og því var það ætlun þeirra frá byrjun að byggja annað hús á lóðinni. Um leið og mögulegt var byggðu þau húsið, en á þann sérstaka hátt að þau reistu það utan um litla timburhúsið, sem þau bjuggu samt í á meðan. Nýja húsið létu þau halda nafninu Sunnuhlíð.

Petra og Nenni eignuðust fjögur börn. Ingimar árið 1945, Elsu Lísu árið 1946 og Svein Lárus árið 1949. Yngsta barn þeirra, Þórkatla, fæddist nokkru síðar eða árið 1962. Nenni var alltaf mikið úti á sjó en Petra sá um börn og bú. Í nokkur ár voru þau með smávegis búskap, um 20 kindur og eina kú. Fjósið var fyrir ofan húsið á svipuðum stað og söguhúsið stendur nú, en í garðinum voru einnig önnur útihús og hundakofi þar sem tíkin Nafna átti heima. Auk þess áttu þau matjurtagarð sem var upp í hlíðinni hérna fyrir ofan. Árið 1974 breyttist líf Petru og fjölskyldu hennar skyndilega. Nenni og Petra voru stödd í Danmörku þegar Nenni, sem hafði verið veill fyrir hjarta um nokkurn tíma, fékk hjartaáfall. Hann þraukaði í viku á sjúkrahúsinu, með Petru við hlið sér, en andaðist síðan aðeins 52 ára að aldri.

Daginn sem Nenni var borinn til grafar ákvað Petra að heimili hennar myndi í framtíðinni verða opið fyrir alla sem vildu skoða steinana hennar. Á þessum degi sorgar og söknuðar hugsaði Petra ekki um eigin missi heldur gaf sér tíma til að færa okkur öllum þá stórkostlegu gjöf sem safnið hennar er. Það segir mikið um örlæti hennar og styrk.