Petra Sveinsdóttir

Petra, eða Ljósbjörg Petra María eins og hún hét fullu nafni, fæddist á aðfangadag jóla árið 1922 í litlum torfbæ við norðanverðan Stöðvarfjörð.

Petra byrjaði að safna steinum fyrir alvöru þegar þau Nenni fluttu inn í Sunnuhlíð árið 1946. Ástæðan var einfaldlega sú að þá hafði hún loksins svigrúm til að færa alla steinana heim í hús. Þessa steina hafði hún skoðað í fjöllunum frá barnsaldri svo að í raun hafði söfnunarstarf hennar farið fram í huga hennar fram að þeim tíma að hún hafði húsrúm til að taka þá með sér og geyma. Eða eins og hún sagði sjálf: „Ég vissi hvert ég ætti að fara þegar ég fór virkilega að safna.“

Áhugi Petru á undrum náttúrunnar var sprottinn af þeirri virðingu sem hún bar fyrir öllu sem náttúrunni tilheyrir. „Ég man eftir því að ég hugsaði að það væri voðalegt að geta hvorki skáldað lag eða vísu eða neitt fallegt um allt það sem maður sér fallegt. Að koma því til skila einhvern veginn. Ég hef upplifað svo margt fallegt út í náttúrinni. Alveg rosalega fallegt; ótrúlegt. Ég hef margoft sest niður og dáðst að náttúrunni. Þetta er allt svo breytilegt.“ Þessi orð sanna að Petra var listakona í hjarta sínu. Steinarnir voru hennar farvegur til að fá útrás fyrir djúpstæða tjáningarþörf og gestabækurnar sýna að margir sem hingað koma upplifa heimili hennar sem listaverk. Petru tókst því að miðla þeirri fegurð sem hún naut á ferðum sínum, þó að það hafi ekki verið ætlun hennar í upphafi.