2. Æska og unglingsár

Í æsku átti Petra stóran vinahóp og tómstundaiðja þeirra var fjölbreytt. Leikir þeirra drógu þó dám af þeim skorti sem var almennur á Íslandi framan af síðustu öld. Leikföng voru fá og því voru leikir barnanna á Stöðvarfirði, eins og annars staðar á landinu, háðir ímyndunarafli þeirra og framtakssemi. Stærsti
og aðgengilegasti leikvangurinn var því náttúran sjálf.

Lækirnir í firðinum voru á þessum tíma fullir af litlum silungi sem Petra og vinir hennar veiddu í fötur. Til veiðanna voru notuð prik með spotta og krók sem þau fengu heiman frá sér. Silungarnir voru settir í þar til gerða polla eða tjarnir sem þau gerðu sérstaklega til að ala silungana í. Niður þessa sömu læki fleyttu þau einnig litlum bátum sem smíðaðir voru fyrir þau. Ekki var óalgengt að Petra og vinkonur hennar sætu við handavinnu í lengri eða skemmri tíma. Petra mundi eftir sér og einni vinkonu sinni sitjandi inni á hlöðuloftinu í Árbæ þar sem þær sátu og prjónuðu, spjölluðu eða sungu. Í góðu veðri var brekkan, fjaran eða árgilin notuð til sömu iðju. Útileikir og hópleikir hverskonar voru vinsælir. Pinnaleikur og slagbolti voru þar vinsælir á daginn en feluleikir eins og útimannaleikur á kvöldin. Á veturna voru brekkurnar ævintýraland sem var nýtt til skíða-og skautaferða.

Petra öðlaðist menntun sína að mestu leyti hjá foreldrum sínum en einnig hjá farandkennara. Farskóli var starfræktur á Stöðvarfirði allt til ársins 1933, eða þangað til Petra var 11 ára. Í nútíma skilningi naut hún því aðeins hefðbundinnar skólagöngu í stuttan tíma. Henni fannst gaman að læra og námið sóttist vel en alltaf leið henni best í leikfimi. Handbolti var þar hennar uppáhald og enginn stóð henni á sporði í þeirri grein, enda var hún þekkt fyrir fádæma harðfylgi og keppnishörku. Síðar átti hún eftir að vinna marga sigra á handboltavellinum.

Þegar á barnsaldri hjálpaði Petra foreldrum sínum við vinnuna heima við. Þessar skyldur jukust þegar á leið en þó sagði Petra síðar að vinnan hefði verið hluti af leik barna og unglinga, því þrátt fyrir erfiðið fannst þeim alltaf gaman að vera innan um fullorðna fólkið þegar mikið var að gera. Þetta skýrðist að hluta af því að börn, unglingar og fullorðnir léku sér einnig saman í hefðbundnum barna og unglingaleikjum. Þannig tengdist samfélag stöðfirskra barna og foreldra þeirra í leik og starfi; í orðsins fyllstu merkingu.

Kvöldvökur einkenndu félagsstarf unglinga á Stöðvarfirði á mótunarárum Petru. Fámennið réði því að breiður aldurshópur kom að þessum samkomum en gerði það jafnframt að verkum að mikið af skemmtiefni þeirra var samið af þeim sjálfum. Vísur hverskonar, söngur og kvæðaflutningur naut vinsælda og settir voru upp frumsamdir leikþættir um lífið í firðinum. Það kom einnig fyrir að metnaðarfyllri verk voru á dagskránni eins og t.d. hin klassísku verk Piltur og stúlka og Maður og kona eftir Jón Thoroddsen. Þessar samkomur voru haldnar reglulega nema að eitthvað sérstakt kæmi til. Auðvitað hittust jafnaldrar í minni hópum en þá hélst samt sú hefð að segja sögur. Þegar skyggja tók voru draugasögur vinsælastar og gangan heim gat verið löng og erfið í óupplýstu þorpinu.

Jón Ingimundarson, er síðar varð eiginmaður Petru, var einn af þessum hópi, en hann flutti til Stöðvarfjarðar þegar hann var 14 ára. Nenni, eins og hann var ávallt kallaður, og Petra drógu sig snemma saman en um þeirra fyrstu kynni vildi hún aðeins segja þetta: „Við tókum eftir hvort öðru eins og krakkar gera.“

 

Kveðjustund (úr bókinni Steina Petra)

Oft komin til fjalla þegar ég leggst á koddann

Petra Sveinsdóttir„Ég hef verið mjög lánsöm hvað varðar heilsuna, ekki síst hendurnar sem ég hef fiktað með allan daginn. Ég hlýt að þakka það mikilli útiveru. Það er ekki til í dæminu að ég sé hrædd við dauðann. Ég býst ekki við að halda áfram minn veg eins og ekkert hafi ískorist en ég þurrkast örugglega ekki alveg út. Ég trúi því ekki endilega að skrattinn bíði öðrum megin og reyni að klófesta mig og guð hinum megin. Það er margt meira spennandi í veröldinni en þetta sem við okkur blasir dagsdaglega. Ég sé ekki eftir neinu, er mjög sátt og vildi ekki breyta neinu þótt ég gæti rakið upp lífið. Ég prjóna iðulega frá morgni til kvölds og er oft komin til fjalla þegar ég leggst á koddann."

Petra lést 10. janúar 2012, sex vikum eftir að bókin var gefin út.