1. Fyrstu árin

Petra, eða Ljósbjörg Petra María eins og hún hét fullu nafni, fæddist á aðfangadag jóla árið 1922 í litlum torfbæ við norðanverðan Stöðvarfjörð. Torfbærinn, sem hét Bæjarstaðir, var lítill á okkar tíma mælikvarða en hann fór í eyði fyrir mörgum áratugum síðan. Tóftir hans eru þó greinilegar enn í dag og eru lýsandi fyrir líf fólksins hér í firðinum framan af síðustu öld. Petra var dóttir Sveins Björgólfssonar útvegsbónda og Svanhvítar Láru Sigríðar Pétursdóttur konu hans sem bjuggu á Bæjarstöðum frá 1913 til 1927 en þá fluttu þau inn í Kirkjubóls-þorpið eins og þorpið í Stöðvarfirði hét áður. Þar byggðu þau sér hús sem þau nefndu Árbæ.

Minningar Petru frá árunum á Bæjarstöðum voru ekki margar en minningabrot átti hún nokkur sem blandast frásögnum foreldra hennar og þriggja systkina. Þannig mundi Petra óljóst eftir sér sitjandi á syllu í hamrabeltinu ofan við Bæjarstaði. Hún var sem oftar í gæslu eldri systkina sinna sem voru við leik í klettunum þegar skall á svartaþoka. Petra mundi að kallað var á hana innan úr þokunni um að halda kyrru fyrir þar sem hún sat. Drjúga stund sat Petra grátandi af hræðslu á klettasnösinni og sá ekkert frá sér vegna þokunnar. Systkini hennar biðu einnig í klettunum, lömuð af ótta og áhyggjum af litlu systurinni. En eins og alltaf létti þokunni um síðir og systkinin komust heil heim þó risið á þeim hafi ekki verið hátt. Það er viðeigandi að fyrstu óljósu minningar Petru tengdust fjöllunum í firðinum á þennan hátt.

Fyrstu skýru minningar Petru tengdust flutningum fjölskyldunnar. Hún var þá á sjötta ári og vistaskiptin féllu henni afar illa. Hún gerði uppreisn gegn öllum þessum breytingum og prílaði þá gjarnan upp á hlöðuna við Árbæ til að lýsa gremju sinni. Þar á þakinu mundi hún fyrst eftir sér; horfandi til hafs, bölvandi eða syngjandi til skiptis, allt eftir því hvernig á henni lá eða hversu lengi hún hafði dvalið þar uppi. Þetta var foreldrum Petru skapraun en henni tókst að láta vita af óánægju sinni og von um að fjölskyldan flytti aftur í gamla torfbæinn.

Fyrsta árið í Árbæ var Petra mikið veik og illa horfði um tíma. Um haustið 1928 veiktist hún svo illa af kíghósta að henni var ekki hugað líf. „Stundum hélt fólkið að ég væri dauð og ég man eftir því einu sinni að pabbi henti mér upp á rúm og sagði að þetta þýddi ekki meira. En um leið greip ég andann. Ég man þetta eins og það hefði gerst í gær. Ég var sex ára.“ Um jólin sama ár veiktist Petra af mislingum sem lögðust einnig mjög þungt á hana.

Það kom snemma fram að Petra var skapmikil og frá fyrstu tíð lét hún vita af því þegar henni mislíkaði. Því fengu strákarnir í þorpinu að kynnast, því Petra slóst við þá nær daglega. Stundum var hún að rétta sinn hlut en oftar var hún að verja þá sem minna máttu sín. Þessi seigla reyndist henni vel síðar á ævinni þegar hún bar heim drápsklyfjar af steinum.

Áhugi Petru á fallegum steinum fylgdi henni alla ævi. Í byrjun vöktu þeir steinar áhuga hennar sem lituðu og hægt var að nota til að teikna með. Síðar notaði hún steinana sem hún fann til að skreyta „gullabúin“, eins og Petra og vinkonur hennar kölluðu kofa sem þær byggðu úr grjóti og öðru sem handhægt var. Kofarnir voru þeirra heimili og voru byggðir í námunda við foreldrahúsin. Þessi frumstæðu híbýli risu víða um fjörðinn. Petra nýtti fjöruna á meðan aðrir staðsettu sína kofa í hraungjótum eða í giljum bæjarlækjanna sem renna í gegnum þorpið. Kofana skreyttu stúlkurnar á ýmsan hátt en Petra notaði mest litríka steina. Suma steinana notaði hún einnig undir „drullukökur“ sem hún skreytti með fræjum og blómum. Einnig bar hún fram rófubita, rifsber og rabarbara í fyrstu holufyllingunum sínum sem hún fann aðeins 7-8 ára.

Kveðjustund (úr bókinni Steina Petra)

Oft komin til fjalla þegar ég leggst á koddann

Petra Sveinsdóttir„Ég hef verið mjög lánsöm hvað varðar heilsuna, ekki síst hendurnar sem ég hef fiktað með allan daginn. Ég hlýt að þakka það mikilli útiveru. Það er ekki til í dæminu að ég sé hrædd við dauðann. Ég býst ekki við að halda áfram minn veg eins og ekkert hafi ískorist en ég þurrkast örugglega ekki alveg út. Ég trúi því ekki endilega að skrattinn bíði öðrum megin og reyni að klófesta mig og guð hinum megin. Það er margt meira spennandi í veröldinni en þetta sem við okkur blasir dagsdaglega. Ég sé ekki eftir neinu, er mjög sátt og vildi ekki breyta neinu þótt ég gæti rakið upp lífið. Ég prjóna iðulega frá morgni til kvölds og er oft komin til fjalla þegar ég leggst á koddann."

Petra lést 10. janúar 2012, sex vikum eftir að bókin var gefin út.